top of page
Search
Writer's pictureBjarni Már Ólafsson

Rafhjól - Hjartvænn samgöngumáti

Updated: Nov 9, 2019

Segja má að reiðhjól hafi verið í tísku síðustu ár á Íslandi. Hjólreiðakeppnir á borð við Wow cyclothon hafa verið vinsælar og mikið um þær fjallað, fjallahjólreiðar, þríþrautarkeppnir, skrúðreiðin Tweet ride og svo mætti lengi telja. Sífellt fleiri kjósa að nota reiðhjól sem samgöngutæki og kunna að vera margar ástæður að baki, loftslagsmál, heilsubót, sparnaður eða hreinlega sú að það er skemmtilegt að hjóla.


Sjálfur hef ég mjög gaman að hjólum og hef átt fjöldann allan af götuhjólum, fjallahjólum, borgarhjólum, og nú síðast rafhjólum. Nú er að verða algjör sprenging í vinsældum rafhjóla og mig langar að taka þau sérstaklega fyrir og fara yfir kosti þeirra fyrir einstaklinga sem eiga erfitt með að hjóla á hefðbundnum hjólum.


Hér sameinast nefnilega áhugamálið, vinnan og persónuleg reynsla á einum og sama staðnum. Þolþjálfun hjartveikra á rafmagnshjóli. Ég er starfandi sjúkraþjálfari og einkaþjálfari en hef líka verið í sporum sjúklings í endurhæfingu. Ég fór sumarið 2016 í hjartalokuskipti og fékk ígrædda ósæðarhjartaloku úr kálfi. Í framhaldi af aðgerð þurfti ég svo að vinna upp þrek og þol, sem þarf að gera í rólegheitum með stigvaxandi ákefð.

Rafhjólin eru spennandi valmöguleiki við slíka hjartaendurhæfingu og eru frábær að því leiti að á þeim má stýra álaginu. Þú stillir einfaldlega hversu mikla hjálp þú vilt fá frá rafmótornum. Samantektarrannsókn frá síðasta ári sýndi að á rafhjólinu er fólk að reyna meira á sig líkamlega heldur en við göngu en minna en við hefðbundnar hjólreiðar. Allir þeir sem hafa þurft að láta brekkurnar og mótvindinn stoppa sig frá hjólreiðum ættu að geta farið leiða sinna á rafhjóli.


Gefum okkur að rafhjól hafi nokkur þrep aðstoðar eins og flest rafhjól eru sett upp, allt frá mjög mikilli aðstoð í litla sem enga aðstoð. Með mestu aðstoðinni þarf hjólreiðamaðurinn rétt svo að stíga pedalana til þess að þjóta af stað en með minnstu aðstoð er það hjólreiðamaðurinn sjálfur sem knýr hjólið að mestu áfram en fær léttan meðbyr í brekkum. Öll þrepin brúa þannig erfiðleikabilið frá því að ganga yfir í það að hjóla á hefðbundnu hjóli. Fyrir hjartveika getur þetta stökk virst óyfirstíganlegt, en á rafhjólinu getur fólk byrjað með mikla aðstoð og stefnt að því að geta hjólað með minni og minni aðstoð. Eins er hægt að breyta stillingunum eftir dagsformi, vindátt, landslagi eða hverju sem hentar.


Það er ekki bara mín persónulega skoðun að þetta sé besta samgöngutækið. Ein glæný rannsókn sýnir  að fólk á rafhjólum er hamingjusamasta fólkið í borgartraffíkinni. Það má rekja til þess að fólk mætir yfirleitt ekki seint vegna utanaðkomandi þátta eins og umferðarteppum og því að þú ert að stunda þægilega hreyfingu sem gerir þér kleyft að horfa í kringum þig, njóta umhverfisins og jafnvel spjalla við ferðafélagann ef hann er til staðar.

Svo eru eflaust einhverjir sem gefa lítið fyrir hreyfinguna sem fylgir rafhjólaferðum en merkilegt nokk sýndi glæný könnun sem gerð var í sjö borgum evrópu að þeir sem hjóla á rafhjólum virðast velja að hjóla lengri leiðir en þeir sem hjóla á venjulegu hjóli og enda því á því að stunda álíka mikla hreyfingu.

Ég vona að þessi stutta yfirferð kveiki áhuga á rafhjólum eða allavega forvitni. Mig langar líka að hvetja alla sem á annað borð kunna að hjóla að fara í hjólabúðirnar og fá að prófa. Það er tæplega hægt að lýsa því hvað það er gaman að svífa um á rafhjóli. Ég er að minnsta kosti ekki nógu ljóðrænn til að túlka upplifunina.


37 views0 comments

Comentarios


bottom of page