top of page
Search

Jón Daði Böðvarsson - Saga að segja ungu íþróttafólki

Updated: Nov 9, 2019

Jón Daða Böðvarsson þekkja flestir Íslendingar í dag. Hann er mikilvægur íslenska karlalandsliðinu sem sló í gegn í Frakklandi. Ég kynntist Jóni Daða þegar ég fór að æfa fótbolta á Selfossi árið 2007. Þá var Jón Daði 15 ára og var ekki nefndur á nafn þegar ég spurði nýja liðsfélaga hverjir væru bestir í flokknum. Um þetta leyti fór að bera á því að Jón Daði tæki meiri framförum en flestir aðrir. Hann varð betri og betri á boltanum og fór að sýna magnaða takta þegar hann hljóp upp kantinn, sem var hans staða. Þegar ég spurði hvað væri í gangi með þennan strák sögðu Selfyssingarnir mér að hann væri hreinlega alla daga á gervigrasinu að leika sér og æfa sig í fótbolta og það væri að skila sér.


Leiðin að því að verða einn af bestu fótboltamönnum landsins var alls ekki greiðari fyrir Jón Daða en aðra unga fótboltastráka. Mamma hans átti ekki gott með að borga æfingagjöld fyrir hann og sennilega átti hann heldur ekki alltaf nýjustu og flottustu fótboltaskóna. Hann var ofvirkur og með athyglisbrest, sem gerði honum erfitt fyrir í skóla.


Við vorum nokkrar annir saman í knattspyrnuakademíu Fjölbrautaskóla Suðurlands og þar vil ég meina að hann hafi borið af á einu sviði. Allir mættu á skylduæfingarnar og hann var engin undantekning á því. En þess fyrir utan fengum við heimavinnu, sem voru styrktaræfingar sem við áttum að sinna utan skólatíma. Það var upp og ofan hvort menn gæfu sér tíma í að sinna þeim, enda var ekkert sérstakt eftirlit með því hvort það væri gert eða ekki. Jón Daði virtist hinsvegar alltaf sinna sínum æfingum og það án þess að spá neitt sérstaklega í það hvort þjálfararnir vissu af því eða ekki. Ég man eftir því að hafa farið sjálfur til þjálfaranna okkar til þess eins að benda þeim á hvað Jón Daði væri duglegur í styrktaræfingunum.


Nú er þessi dugnaður enn einkennandi fyrir hann, innan sem utan vallar. Hann er orðinn atvinnumaður og virðist enn vera þyrstur í aukaæfingar. Miðað við það sem ég hef lesið í kringum Evrópumótið virðist hann hafa leitað til nokkurra styrktarþjálfara síðustu ár til þess að bæta leik sinn enn frekar. Semsagt, enn að sinna aukaæfingunum. Svo að lokum má nefna að hann er enn hin besta fyrirmynd utan vallar. Hann einbeitir sér að íþróttinni, en ekki næturlífinu eins og sumum hættir til að gera. Fyrir nokkrum árum stofnaði hann svo styrktarsjóð á Selfossi fyrir börn efnaminni foreldra, sem er hugsaður til að aðstoða við greiðslu æfingagjalda og fleira í kringum fótboltann.


Það eru sennilega flestir frábærar fyrirmyndir, íslensku landsliðsmennirnir, en ég segi krökkum sögur af Jóni Daða.



35 views0 comments

Comments


bottom of page